Samþykktir Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins

Samþykktir Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins

 

I. NAFN OG TILGANGUR

1. Nafn og lögheimili

Nafn ráðsins er Þýsk-íslenska viðskiptaráðið, hér eftir nefnt ráðið.

Heimili og varnarþing ráðsins er í Reykjavík og um réttarstöðu þess fer að íslenskum lögum.

2. Tilgangur og verkefni

(1) Ráðið hefur það verkefni, að efla verslunar- og viðskiptasambönd milli Þýskalands og Íslands.

Líta ber á ráðið sem vettvang til skoðana- og upplýsingaskipta milli viðskiptaaðila og ríkisstjórna beggja landa.

Ráðið mun leitast við að styrkja hagsmuni félagsmanna með því að stuðla að nán- ara sambandi fyrirtækja beggja landa.

(2)  Til þess að ná þessu markmiði hvíla á ráðinu, svo fremi ekkert annað segir í lögunum, eftirfarandi verkefni:

  1. Upplýsingaþjónusta og ráðgjöf.

  2. Miðlun, umsjón og þróun viðskiptasambanda milli fyrirtækja í báðum löndunum.

  3. Að koma á og hafa umsjón með tengslum milli viðskiptaaðila beggja landa, sem áhuga hafa á því.

  4. Að vaka yfir viðskiptalegum hagsmunum félaga sinna jafnt hjá íslenskum sem þýskum yfirvöldum og opinberum stofnunum.

  5. Að safna og koma á framfæri upplýsingum um viðskiptalífið bæði á Íslandi og Þýskalandi, um ástand og þróun viðskipta, með útgáfustarfsemi; fréttabréfum, ársskýrslum, ritlingum og öðrum upplýsingagögnum.

  6. Að sjá um og boða samkomur svo sem blaðamannafundi, upplýsingaráðstefnur, móttökur og umræðufundi, í samræmi við tilgang ráðsins.

  7. Að fræða um sölu-, kaup- og fjárfestingarmöguleika í báðum löndum.

  8. Að hafa milligöngu um samkomulag í deilum milli aðila af báðum þjóðernum.

  9. Að takast á við hvert það löglega verkefni, sem þjónar þeim markmiðum sem lýst er í lið (1).

 

II. FÉLAGAR

3. Félagsmenn

(1) Ráðið er myndað af:

  • Almennum félögum
  • Heiðursfélögum

(2)

  1. Almennir félagar geta verið einstaklingar með íslenskan eða þýskan ríkis- borgararétt, svo og fyrirtæki sem eru að verulegu leyti í eign þýskra eða íslenskra borgara eða félög í einka- eða opinberri eign, með aðsetur í Þýskalandi eða á Íslandi, sem taka sannanlega þátt í þýsk-íslenskum viðskiptum.
  2. Stjórn ráðsins getur tilnefnt á aðalfundi einstaklinga, sem hafa unnið sérstaklega að eflingu ráðsins, til heiðursfélaga, með minnst 2/3 hluta atkvæða viðstaddra og af sérstöku tilefni tilnefnt heiðursforseta ráðsins.

Heiðursfélagar hafa seturétt en ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum.

(3)  Stjórnin tekur ákvörðun um félagaaðild, sem þarf að sækja um skriflega. Úrsögn er einnig skrifleg og miðast við áramót.

(4)  Auk þess getur stjórnin með 2/3 atkvæða gert félaga brottrækan ef sérstök ástæða liggur fyrir. Sérstök ástæða telst fyrst og fremst alvarlegt brot gegn hagsmunum eða tilgangi ráðsins, brot á lögum þess og eins óheiðarleg framkoma.

 

III. STJÓRN

4. Hlutverk

(1)  Stjórnin vinnur að verkefnum ráðsins, gætir tilgangs þess, sér um stefnumótun og gætir hagsmuna félaga. Hún starfar eftir ákvörðun stjórnarfunda og í samræmi við 01., lið (3).

(2)  Stjórnin tekur ákvarðanir í þeim málum, sem aðalfundur hefur ekki tekið skýlausar ákvarðanir í eða heyra ekki beint undir framkvæmdastjórann samkvæmt lögum eða félagslögum.

 

5. Myndun og kosning

(1)  Í stjórn eru níu (9) stjórnarmenn sem eru kosnir til tveggja ára á aðalfundi. Stefnt skal að því að sem mest jafnfræði ríki milli þýskra og íslenskra ríkisborgara varðandi fjölda stjórnarmanna hverju sinni. Í stjórn má ekki sitja nema einn fulltrúi hvers félagsaðila.
 
(2)  Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára. Endurval er leyfilegt. Stjórnarsetan er persónuleg og staðgengill ekki leyfður.
 
(3)  Stjórnin velur stjórnarformann og varaformann.
 
(4)  Stjórnin getur tekið bindandi ákvarðanir ef 4 stjórnarmenn eru mættir. Við stjórnarákvarðanir nægir einfaldur meirihluti. Þegar atkvæði eru jöfn hefur atkvæði stjórnarformanns tvöfalt vægi.
 
(5)  Undirritun stjórnarformanns og framkvæmdastjóra skuldbinda ráðið. Ef ekki er búið að ráða framkvæmdastjóra verður ráðið skuldbundið með undirritun stjórnarformanns ásamt einum stjórnarmanni eða tveim stjórnarmönnum saman.
 
(6)  Ef stjórnarmaður fellur úr stjórn áður en stjórnartímabilinu er lokið, þá getur stjórnin valið óbreyttan félaga í stjórnina til næsta aðalfundar.

 

IV. AÐALFUNDUR

6. Boðun og dagskrá

(1)  Aðalfund ber að halda í síðasta lagi í maí á ári hverju. Senda verður boð um aðalfund með minnst 2 vikna fyrirvara og þá með dagskrá. Auk þess á að halda að minnsta kosti einn stjórnarfund á árinu. Stjórnin getur boðað til aukafundar með að minnsta kosti 3 vikna fyrirvara.
 
(2)  Félagar með kosningarétti geta borið fram tillögur til dagskrár, sem þurfa að berast stjórninni að minnsta kosti viku fyrir fund.

 

7. Fundarsköp

(1)  Allir félagar hafa rétt til að mæta á aðalfundi, bera fram tillögur og greiða atkvæði.
 
(2)  Hver óbreyttur félagi, sem hefur greitt félagsgjald og hver heiðursfélagi eiga eitt atkvæði á aðalfundi, en stjórnarformaður hefur tvö atkvæði. Löglega valinn fulltrúi félags eða fyrirtækis greiðir atkvæði fyrir umbjóðanda sinn. Skriflegt umboð til atkvæðisréttar má veita fyrir allt að 5 atkvæðum. Atkvæði eru greidd með handaupp- réttingu nema leynilegrar atkvæðagreiðslu verði óskað.
 
(3)  Einfaldur meirihluti nægir til ákvörðunartöku nema lögin segi annað.

 

8. Fundarstjórn og fundarritun

(1)  Stjórnarformaður stýrir aðalfundi, en varaformaður ef stjórnarformaður forfallast.
 
(2)  Framkvæmdastjóri ritar fundargerð.

(3)  Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:

 

 

 

 

 

1. Skýrsla stjórnar
2. Ársreikningur
3. Kosning stjórnarmanna
4. Kosning endurskoðanda/skoðunarmanna
5. Kynning á fjárhagsáætlun næsta rekstrarárs og ákvörðun árgjalds
6. Breytingar á samþykktum
7. Önnur mál 

V. FRAMKVÆMDASTJÓRN

9. 

(1)  Framkvæmdastjórinn er ábyrgur fyrir öllum daglegum rekstri samkvæmt þessum lögum.
 
(2)  Framkvæmdastjórinn ræður allt starfslið skrifstofunnar. Framkvæmdastjórinn getur í samráði við stjórnina sett samstarfsmann sem staðgengil sinn.
 
(3)  Framkvæmdastjórinn eða staðgengill hans taka þátt í félagsfundum, stjórnarfundum, tilsjónarnefndum, félagssamkomum og nefndarfundum.
 
(4)  Framkvæmdastjóri og öllu starfsfólki ráðsins ber að hafa í heiðri óhlutdrægni og trúnað í starfi.

 

 

 VI. FJÁRMÁL

10. 

(1)  Ráðið fær fjármagn til að sinna verkefnum sínum með: 

  • Félagsgjöldum
  • Þjónustugjöldum
  • Óafturkræfum styrkjum
  • Vöxtum og arði af eignum
  • Annarri fjáröflun
(2)  Hin árlegu félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og á að greiða þau í síðasta lagi í næsta mánuði eftir fundinn. Stjórnin getur útilokað félaga sem ekki greiða tímanlega.
 
(3)  Reikningsár ráðsins er almanaksárið.
 
(4)  Aðalfundur velur úr hópi sínum tvo endurskoðendur eða felur utanaðkomandi endur- skoðunarskrifstofu það hlutverk.

 

 

VII. ÖNNUR ÁKVÆÐI 

11. Fyrirsvar

(1)  Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hafa fyrirsvar fyrir ráðinu jafnt í dómsmálum sem öðrum málum nema landslög kveði á um annað. Heimilt er að fela öðrum umboð í einstökum málum.
 
(2)  Ef stjórnarformaður eða framkvæmdastjóri er forfallaður mega fulltrúar þeirra koma fram fyrir þá.

 

12. Slit ráðsins

(1) Ákvörðun um slit ráðsins þarf að taka á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða.

(2) Þeim eignum, sem ekki hefur verið ráðstafað og kunna að vera eftir þegar búið er að ganga frá öllum skuldbindingum við slit félagsins skal ráðstafa á aukafélagsfundi og afhenda þær stofnun, sem vinnur að sömu eða líkum verkefnum og ráðið gerði eða stofnunum, sem hafa þann tilgang að efla þýsk-íslensk viðskiptasambönd.

 

13. Lagabreytingar

Ákvörðun um lagabreytingar skal tekin af 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skal kynna með fundarboði fyrir aðalfund.

 

14. Úrsögn úr félaginu

Útsögn úr félaginu þarf að vera skrifleg og tekur gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún berst. Úrsögn hefur ekki áhrif á skyldu til greiðslu árgjalds á yfirstandandi reikningsári. 

 VIII. SAMÞYKKT FÉLAGSLAGANNA

15. 

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi í Reykjavík 12. október 1995 og breytt á aðalfundi þann 19.5.2020.

Þau öðlast gildi við staðfestingu framhaldsstofnfundar í Hamborg 27. október 1995.